Confirm domain ownership
top of page

Slæmar vinnustellingar, einhæf hreyfing og andlegt álag!

„Þegar sest er fyrir framan tölvuna, þá eru fæstir að velta fyrir sér hvernig líkamsstaðan er, því síður hvort að skjárinn sé í réttri hæð eða hvort að stóllinn sé þægilegur og veiti þann stuðning sem maður þarfnast” segir Ásgerður Guðmundsdóttir sjúkraþjálfari og eigandi Vinnuheilsu. 

 

Hún segir að flestir setjist í stólinn sinn og byrja að vinna. Vakna svo upp við vondan draum eftir marga mánuði og jafnvel ár og furða sig svo á því af hverju verkir séu alltaf að aukast og dreifa sér um stoðkerfið.

118563146_2422687698022450_2934754307527

Hvernig verki er fólk helst að finna fyrir?

„Vöðvabólga í hálsi og baki er algengust, sem getur leitt til skerts hreyfigetu og spennuhöfuðverks. Líðan okkar er mjög misjöfn og fer eftir því hvers eðlis vinnan okkar er hverju sinni. Munurinn á líkamlegum og andlegum einkennum er sú að við getum staðsett líkamlegu einkennin t.d. með því að bora löngutöng og vísifingri hraustlega í axlarvöðvann á okkur í uþb. 5 sekúndur.

Ef við finnum fyrir seiðingi eða verk í vöðvanum eftir á, erum við að öllum líkindum komin með vöðvabólgu.

Ef ekkert er gert getur álag og stress farið að leiða til streitu. Og þá geta andleg einkenni farið að láta kræla á sér. Andleg einkenni eru ekki beint áþreifanleg en geta verið varhugaverð ef við hunsum einkennin.

Við finnum að skapgerð okkar getur breyst, okkur fer að skorta þolinmæði og við getum orðið pirruð og skapstygg. Einkennin geta líka komið fram í breyttri hegðun á meltingu og svefnmynstri”.

Hafa einkennin stress og streita eitthvað aukist á tímum covid-19?

„Eftir að fólk fór að vinna meira heima hjá sér, hafa bæði líkamleg og andleg einkenni komið fram.

Og þá helst vegna slæmra vinnustellinga, einhæfra hreyfinga og andlegs álags þar sem samræma þarf vinnu og heimilishald. Fólk kvartar undan alls kyns einkennum og verkjum sem það hefur ekki endilega fundið til áður og gamlir verkir eru jafnvel að  vakna upp úr dvala eins og sinaskeiðabólga, tennisolnbogi, frosin öxl, spennuhöfuðverkur, mjóbakseymsl og fótaóeirð svo dæmi séu nefnd”.

shutterstock_1192394203.jpg
download.jpg

Hvað gæti fólk gert til þess að koma í veg fyrir frekari stoðkerfiskvilla?

„Að mínu mati er rétt líkamsbeiting lykillinn að vellíðan við vinnu. Mikilvægt að búa yfir góðum skrifborðsstól og kunna á hann. Það að sitja á hörðum eldhússtól, sitja skakkt við borðið, hafa lyklaborðið og músina einhvern vegin fyrir framan sig og rýna á skjáinn beint á ská getur þróast í kvalræði fyrir alla.

 

En ef þú veist hvernig þú átt að búa þér til heilsusamlega vinnuaðstöðu og stillir stólinn eftir þínum þörfum hverju sinni, þá ertu farin að vinna í forvörn. Og ekki bara í forvörn heldur ertu farin að forgangsraða þér og þinni heilsu fram yfir allt”.

Er eitthvað fleira sem fólk þarf að huga að í sambandi við stillingar á búnaði?

„Að öllu jöfnu þarftu að stilla stólinn þinn á mismunandi vegu þrisvar sinnum yfir daginn eða oftar. Það er, breyta fram- og afturhalla á setu, fram- og afturhalla á baki, breyta mjóbaksstuðningi af og til og breyta viðnámi í stólnum þegar þú vilt hafa hann sem ruggustól.

Ruggustólshreyfing gerir það að verkum ferð að nota svokallaða djúpöndun og þess lags öndun teygir á millirifjavöðvum. Þetta samspil hefur streitulosandi áhrif á mann.

Gott er að nota stólarma og stilla þá þannig að þeir nemi við borðplötuna, þannig færðu ókeypis slökun fyrir axlarvöðvana. Ef þú nærð ekki tábergi og hæl í gólf, þá þarftu að nota fótskemil”.

 

„Standa þarf upp að minnsta kosti einu sinni á klukkustundarfresti og teygja úr sér. Gott er að stilla rafdrifið borð uppi áður en þú ferð í mat, þannig að þú standir í 15-20 mín eftir hádegishlé og svo aftur í lok dags, þannig að þú byrjir á því að standa þegar þú hefst handa næsta morgun. Við þetta eyskt þolið við að standa lengur smám saman”.

 

Aðeins um Vinnuheilsu

„Vinnuheilsa ehf sérhæfir sig í ráðgjöf í vinnuvistfræði eða Office Ergonomics, sem gengur út á samspil mannsins og umhverfisins. Um þessar  mundir er mikið um það að yfirmenn panti námskeið hjá Vinnuheilsu fyrir starfsfólk sitt í gegnum fjarfundarbúnað.  

Þannig getur hver og einn lært að breyta starfstöð sinni á réttan hátt og lært hvernig má draga úr stoðkerfiskvillum eins og vöðvabólgu og bakverkjum þannig að honum líði sem best við iðju sína”.

Eitthvað að lokum?

Ásgerður segir að það veiti ekki af að kunna rétta líkamsbeitingu. Við eigum jú bara einn líkama og komum til með að búa í honum alla okkar ævi. Hún segir að lokum að „Ef þú hefur ekki tíma fyrir heilsuna í dag, hefur þá kannski ekki heilsu fyrir tímann á morgun”. Þannig er nú það!

bottom of page